Gríska leikkonan Irene Papas, sem er þekktust fyrir hlutverk sín í myndunum The Guns of Navarone og Zorba the Greek, er látin 93 ára gömul.
Í yfirlýsingu sagði menningarmálaráðherra Grikkja, Lina Mendoni, að Papas hafi verið „tignarleg“ og „persónugervingur grískrar fegurðar á hvíta tjaldinu og á leiksviði“.
Ekkert kemur fram um dánarorsök en Papas hafði glímt við Alzheimer-sjúkdóminn og verið heilsulítil.
Papas, sem var einn þekktasti leikari Grikklands, lék í yfir 60 kvikmyndum á tæplega sex áratuga ferli.
Hún lék á móti stjörnum á borð við Richard Burton, Kirk Douglas og Jon Voight á ferli sínum.
„Venjulegir leikarar eiga erfitt með að deila hvíta tjaldinu með henni,“ sagði gagnrýnandinn sálugi Roger Ebert árið 1969.