Kryddpían Melanie Chrisholm, betur þekkt sem Mel C, segir að brotið hafi verið á henni kynferðislega kvöldið fyrir fyrstu tónleika Spice Girls árið 1997. Mel C opnaði sig um brotið í hlaðvarpsþætti Elizabeth Day.
Hún segir brotið hafa átt sér stað þegar hún fór í nudd á hóteli í Tyrklandi. „Mér leið eins og brotið hefði verið á mér. Ég fann fyrir miklu varnarleysi. Ég skammaðist mín,“ sagði Mel X.
Hún segist svo hafa fundið fyrir efa. „Upplifði ég þetta rétt? Ég var í aðstæðum þar sem ég átti að fara út fötunum fyrir framan þessa fagmanneskju,“ sagði söngkonan. Hún segist hafa reynt að gleyma þessu atviki og grafa það. Hún einbeitti sér heldur að tónleikunum, hún vildi ekki búa til neitt vesen né hafði tíma til þess.
Hún segir þá ákvörðun hafa valdið því að hún talaði ekki um atvikið í mörg ár. Það hafi aðeins verið þegar hún fór að skrifa sjálfsævisögu sína að minningarnar komu til baka.
„Þetta kom til mín í draumi, eða ég eiginlega vaknaði og var að hugsa um þetta. Og ég hugsaði bara með mér, Guð minn eini, mér var ekki búið að detta í hug að skrifa um þetta,“ sagði Mel C.
Síðan segist hún hafa velt fyrir sér hvort hún vildi yfir höfuð segja öllum heiminum frá þessu, en komst að þeirri niðurstöðu að það væri mjög mikilvægt fyrir hana að gera það. Hún lýsir brotinu sem mildu kynferðisbroti, en að hún vilji tala um það því það hafði áhrif á hana.
Þáttinn má hlusta á hér fyrir neðan.