Vilhjálmur Bretaprins sagði að gangan á eftir kistu ömmu hans, Elísabetar II. Bretadrottningar, frá Buckinghamhöll til Westminster í gær hafi minnt hann á þegar hann gekk á eftir kistu móður sinnar, Díönu prinsessu af Wales, árið 1997.
Prinsinn sagði þetta við syrgjendur við Sandringham í dag, en hann og eiginkona hans, Katrín prinsessa af Wales, skoðuðu blómin við kastalann í dag og heilsuðu upp á syrgjendur þar.
„Gangan í gær var mikil áskorun. Það minnti mig á margt,“ sagði Vilhjálmur við nokkra fyrir utan Sandringham. „Þetta eru þessi augnablik, sem maður hugsar með sjálfum sér að maður sé undirbúinn fyrir þetta, en raunin er svo önnur,“ sagði Vilhjálmur.
„Hann sagði okkur að gærdagurinn hafi verið sérstaklega erfiður og að ganga á eftir kistunni hafi minnt hann á útför móður hans,“ sagði Jane Wells, sem ræddi við fjölmiðla við Sandringham í dag.
Bræðurnir Vilhjálmur og Harry Bretaprins gengu á eftir föður sínum, Karli III. Bretakonungi, sem var fyrstur í röðinni á eftir kistunni í gær. Viðstaddir sem fréttastofa AFP ræddu við í gær sögðu einnig það sama, að sjá þá bræður ganga á eftir kistunni hafi minnt á útför Díönu prinsessu. Þar hreyfðu bræðurnir, þá 12 og 15 ára, svo sannarlega við hjörtum fólks um allan heim.