Leikkonan Zendaya er í skýjunum eftir að hafa hlotið sín önnur Emmy-verðlaun á mánudagskvöld. Verðlaunin gera hana bæði að yngstu stjörnunni og fyrstu svörtu konunni til að hljóta tvenn Emmy-verðlaun sem besta leikkona í aðalhlutverki.
Verðlaunin hlaut hún fyrir hlutverk sitt sem Rue Bennett í hinum geysivinsælu þáttum Euphoria, en árið 2020 vann hún sín fyrstu Emmy-verðlaun fyrir sama hlutverk.
„Þegar þér er illt í fótunum en þú hefur heilmikið til að brosa yfir,“ skrifaði Zendaya við nýjustu færslu sína á Instagram þar sem hún geislaði af hamingju. Zendya var einkar glæsileg á rauða dreglinum þar sem hún mætti í dramatískum svörtum kjól frá Valentino.
Dramaþættirnir Euphoria hafa notið mikilla vinsælda síðan þeir voru fyrst sýndir á HBO í júní 2019. Þættirnir hverfast um hóp nemenda sem feta sig í gegnum ástina og vináttu í heimi fullum af eiturlyfjum, kynlífi, áföllum og samfélagsmiðlum.