Stuðpoppsveitin Kvikindi gefur út glænýtt tónlistarmyndband við lag sitt, Sigra heiminn, í dag, föstudag.
„Ég sigra heiminn á hverjum degi og kem svo heim að tómu rúmi,“ syngur Brynhildur Karlsdóttir, söngkona sveitarinnar, í dramatísku uppgjöri við kvartlífskrísu, árangursdýrkun og ástarþrá.
Í myndbandinu ganga kvikindin nærri Land Rover-jeppa föður Brynhildar, Karls Ágústs Úlfssonar, en hann þekkja landsmenn ekki síst vegna Spaugstofunnar.
Óhætt er að segja að þar sé ögrandi dans á ferðinni. Að öðru leyti er myndbandið innblásið af kvikmyndinni Wild at Heart í leikstjórn David Lynch, þar sem þau túlka frelsisþrá hálfgerðra útlaga, innihaldsleysi og óværð í heimi þar sem ekkert gerist.
Kvikindi skipa ásamt Brynhildi þeir Friðrik Margrétar- Guðmundsson og Valgeir Skorri Vernharðsson en leikstjórn myndbands annaðist Birnir Jón Sigurðsson. Sveitin hyggst gefa út sína fyrstu breiðskífu þann 7. október næstkomandi en hún ber titilinn Ungfrú Ísland.