Leikkonan Brittany Snow og fasteignasalinn Tyler Stanaland hafa ákveðið að skilja eftir tveggja ára hjónaband. Snow er hve þekktust fyrir hlutverk sitt í kvikmyndunum Pitch Perfect á meðan Stanaland hefur skotist hratt upp á stjörnuhimininn nýlega fyrir hlutverk sitt í Netflix-þáttunum Selling the OC.
Heimildamenn Page Six segja skilnaðinn koma í kjölfar Selling the OC. Í þáttunum verður nokkuð drama í kringum hjónaband Stanaland þó svo hann hafi reynt að halda því fjarri þáttunum, en hann var vinsæll meðal samstarfskvenna sinna sem voru ófeimnar við að daðra við hann.
„Allir sem þekkja Tyler og Birttany vita að hún var ekki sátt við þættina. Þess vegna gerði Tyler sitt besta til að halda hjónabandinu og þáttunum aðskildum, en það kom bara í bakið á honum,“ sagði heimildarmaður Page Six.
„Þættirnir eyðilögðu í raun hjónaband þeirra. Brittany var ekki ánægð með það sem hún sá,“ bætti hann við.
Snow og Stanaland birtu bæði tilkynningu um skilnaðinn á Instagram-reikningum sínum. „Eftir nokkurn tíma og mikla íhugun höfum við Tyler tekið þá erfiðu ákvörðun að skilja,“ skrifaði Snow í færslunni. „Þessi ákvörðun er tekin af ást og gagnkvæmri virðingu fyrir hvort öðru,“ bætti hún við.