Kolbrún Ada Gunnarsdóttir, húsvískur aðdáandi bresku konungsfjölskyldunnar, segir mikla ró hafa ríkt í Hyde Park í Lundúnum í dag meðan útför Elísabetar II. Bretadrottningar fór fram. Ada og Berglind Ósk Ingólfsdóttir voru mættar í garðinn klukkan níu í morgun en jarðarförinni var sjónvarpað beint í garðinum.
„Það er bara ótrúlega góð stemning. Fólk er rólegt en tekur þátt í athöfninni. Hér var staðið á fætur þegar allir stóðu á fætur í kirkjunni og svo var líka tveggja mínútna þögn. Bara eins og það væri á staðnum,“ segir Ada.
Ada og Berglind fóru að skoða kistuna í Westminster Hall í gær og heiðra minningu drottningarinnar. Þær voru mættar klukkan sex um morguninn í röðina.
„Við fórum í biðröðina í gær. Við vorum 10 tíma að komast að kistunni en það leið samt mjög hratt. Við bara kynntumst öllum í kringum okkur og vorum bara að spjalla. Síðan vorum við bara að skoða borgina í leiðinni,“ segir Ada. Við komuna í Westminster Hall var öryggisleit eins og á flugvelli.
„Það færist einhver ró yfir mann. Þetta er svo tilkomumikið að koma þarna inn og sjá þetta,“ segir Ada og segir að þetta sé augnablik sem hún muni aldrei gleyma.
Ada og Berglind ákváðu að fara út til Lundúna á laugardeginum eftir að drottningin lést. „Við byrjuðum að skoða hvort þetta væri möguleiki. Hvort við myndum finna ódýrt flug, sem við gerðum. Svo ákváðum við að stökkva. Þetta er bara eitthvað sem maður upplifir einu sinni á ævinni. Þetta er ótrúlegur viðburður,“ segir Ada.
„Við komum á laugardaginn og byrjuðum á að fara í garðana og sjá blómin. Síðan röltum við að Buckinghamhöll og þarna í kring. Við vorum svo heppnar að barnabörnin voru að standa vörð þegar við gengum þarna framhjá. Þannig við náðum að sjá þá bræður [Vilhjálm og Harry] og vinka,“ segir Ada að lokum sem ætlar að eyða deginum á rölti um borgina.