Bræðurnir og tónlistarmennirnir Friðrik Dór og Jón Jónssynir verða með tónleika í Sky Lagoon 4. október til styrktar vistheimilinu Mánabergi. Þeir ætla að gefa vinnu sína en það er góðgerðarfélagið 1881 sem stendur að tónleikunum í samvinnu við Sky Lagoon og Tix.is. 1881 hélt sams konar tónleika í fyrra með tónlistarmanninum Bríeti og rann allar ágóði þeirra til átaksins Gefðu fimmu.
Í ár setur 1881 fókusinn á vistheimilið Mánaberg og önnur vistheimili sem heyra undir Barnavernd Reykjavíkur. Allur ágóðinn af tónleikunum í Sky Lagoon rennur til vistheimilanna sem rekin eru fyrir börn sem búa við slæmar aðstæður heima fyrir.
Á heimilunum er mikið lagt upp úr því að börnin búi við öruggar aðstæður þann tíma sem þau dvelja þar. Á vistheimilunum fá foreldrar og börn stuðning á meðan á vistinni stendur. Oftast eru það veikindi foreldra og erfiðar aðstæður sem leiða til þess að börn þurfa að koma á vistheimili og getur vistun verið allt frá einum sólarhring upp í nokkra mánuði.
Markmiðið með söfnuninni er að endurnýja og kaupa búnað til þess að gera vistheimilið Mánaberg hlýlegra og öruggara.