Leikkonan Drew Barrymore sagðist auðveldlega geta verið án kynlífs í nokkur ár í spjallþætti sínum The Drew Barrymore Show á dögunum. Umræðan kviknaði þegar leikkonan ræddi um leikarann Andrew Garfield sem stundaði ekki kynlíf í sex mánuði þegar hann undirbjó sig undir hlutverk sitt sem prestur í kvikmyndinni Silence árið 2016.
Barrymore þótti það ekki fréttnæmt að Garfield hafi ekki stundað kynlíf í hálft ár, enda þyki henni það ekki vera langur tími án kynlífs. „Hvað er að mér?“ spurði hún áhorfendur sína og bætti við að hún gæti auðveldlega toppað leikarann og verið án kynlífs í nokkur ár.
Spiderman-leikarinn Andrew Garfield greindi frá því í ágúst að hann hefði neitað sér um kynlíf fyrir hlutverk sitt árið 2016. Þetta útskýrði hann í hlaðvarpi Marc Maron. „Maður endar á ansi djúpum stað. Svona ferli breytir manni. Ég stundaði ekki kynlíf í sex mánuði og ég fastaði mikið,“ sagði leikarinn.