Tónlistarkonan Björk Guðmundsdóttir segist í samtali við Sunnudagsblað Morgunblaðsins stefna að því að halda tónleika á Íslandi á næsta ári.
Von er á nýrri plötu frá Björk sem ber heitið Fossora en síðasta plata hennar Utopia kom út árið 2017. Í millitíðinni fór Björk í tónleikaferðalag undir heitinu Cornucopia en sýninguna kallar hún stafrænt leikhús.
„Við höfum reynt mikið að fá Cornucopiu til Íslands en það er mjög erfitt að fjármagna. Það var búið að aðlaga sýninguna að Listahátíð í Reykjavík en þá kom kórónuveiran. Við höfum gert alls konar tilraunir en því miður hefur það ekki gengið. Kannski var það bara ágætt því nú get ég sett Fossoru inn í sýninguna og þá getur fólk bæði séð flauturnar og klarinettin. Eins og staðan er núna þá stefnum við að því að koma fram á Íslandi árið 2023,“ segir Björk.
Ítarlegt viðtal við Björk er að finna í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.