Íslenska tónskáldið Herdís Stefánsdóttir semur tónlistina fyrir nýja kvikmynd úr smiðju bandaríska leikstjórans M. Night Shyamalan. Myndin heitir Knock at the Cabin og kemur út í mars á næsta ári.
Shyamalan er helst þekktur fyrir gerð hryllings- og fantasíumynda en hann hefur meðal annars skrifað og leikstýrt myndum á borð við The Sixth Sense, Signs, The Village og Split.
„Umboðsmaðurinn minn hringdi í mig og spurði mig hvort ég vissi hver M. Night Shyamalan væri,“ segir Herdís í samtali við mbl.is og hlær. Hún sagðist hafa vitað það. „Hann vill tala við þig eins fljótt og auðið er, ertu laus á morgun?“ spurði umboðsmaðurinn Herdísi þá.
Aðdragandinn að þessu símtali er vegna sjónvarpsþáttaraðar sem Herdís vann að og var sýnd á streymisveitunni Hulu í fyrra.
„Ég gerði tónlistina fyrir sjónvarpsseríu á síðasta ári sem heitir Y: The Last Man. Þar var kona að vinna með mér í teyminu sem er svokallaður tónlistarumsjónarmaður (e. music supervisor). Hún hefur unnið með M. Night í tvo áratugi og mælti með mér við hann,“ útskýrir Herdís.
Herdís segist lengi hafa verið aðdáandi hryllingsmynda, þar á meðal mynda eftir M. Night.
„Ég hef dýrkað hryllingsmyndir frá því að ég var lítil. Ég sá The Sixth Sense þegar ég var unglingur og hún hafði það mikil áhrif á mig að ég gat stundum ekki sofnað á næturnar út af einu atriði í myndinni þar sem kalt verður inni þegar draugar eru á sveimi.“
Herdís segir að M. Night hafi verið að hlusta á tónlist eftir sig þegar hann fékk innblásturinn að handritinu fyrir Knock at the Cabin. „Það var mikill heiður. Við héldum fund á Zoom síðasta haust sem gekk mjög vel og réð hann mig þá í verkefnið.“
Eins og áður segir heitir nýja myndin Knock at the Cabin. Er hún byggð á samnefndri bók frá árinu 2018 eftir rithöfundinn Paul G. Trembley. Herdís segir þó að fléttan í myndinni verði með öðru sniði en í bókinni. Hún má þó ekki tjá sig frekar um málið.
„Hann (M. Night) er auðvitað svo ótrúlega leyndardómsfullur og ég er búin að skrifa undir samning sem segir að ég megi ekki tjá mig um söguþráðinn eða nein smáatriði.“
Herdís segist vera í reglulegum samskiptum við leikstjórann.
„Við tölum saman í síma á hverjum degi. Við tengdumst strax rosalega vel. Hann er mjög áhugaverð manneskja, auðmjúk og góð og ekkert upptekinn af sjálfum sér eins og sumir leikstjórar eru,“ segir Herdís og bætir við að M. Night sé einnig mjög einbeittur og eljusamur listamaður.
Herdís hefur búið til skiptis í Reykjavík og í Los Angeles í Bandaríkjunum undanfarin ár en hefur mestmegnis dvalið á Íslandi frá upphafi kórónuveirufaraldursins.
Hún hlaut íslensku tónlistarverðlaunin fyrir bestu frumsömdu tónlistina fyrir sjónvarpsþættina Y: The Last Man. Hún var einnig tilnefnd til sömu verðlauna fyrir tónlistina í kvikmyndinni The Sun Is Also A Star.
Þá samdi Herdís tónlistina fyrir íslensku sjónvarpsþáttaröðina Verbúðina ásamt tónskáldinu Kjartani Hólm.