Eurovision-söngvakeppnin mun annaðhvort fara fram í Liverpool eða Glasgow árið 2023. Þetta kemur fram í tilkynningu frá BBC.
Í júlí kom fram að Bretland myndi halda keppnina fyrir Úkraínu sem vann keppnina í ár, en ástæðan er innrás Rússlands í Úkraínu. Samband evrópskra sjónvarpsstöðva (EBU) mat það svo að ekki væri hægt að tryggja öryggi á keppninni yrði hún haldin þar, en það var EBU sem tók ákvörðunina ásamt ríkissjónvarpi Úkraínu.
Bretland lenti í öðru sæti í keppninni í ár og í ágúst var tilkynnt að sjö borgir í Bretlandi myndu keppa um að halda keppnina. Eftir ítarlegt matsferli stendur valið nú á milli tveggja borga, Liverpool og Glasgow. Endanleg ákvörðun verður tekin innan nokkurra vikna.
„Við erum þess fullviss að þessar tvær borgir séu best í stakk búnar til að takast á við þessa áskorun og hlökkum til að halda áfram umræðum okkar og velja þá borg sem mun setja upp stærsta tónlistarviðburð heims í maí næstkomandi,“ sagði Martin Österdahl, framkvæmdastjóri Eurovision.
Hann segir söngvakeppnina flóknustu sjónvarpsframleiðslu í heimi enda séu sérstakar kröfur settar fram þar sem taka þurfi á móti gríðarlegu magni af fólki í tengslum við keppnina.