Mary, krónprinsessa í Danmörku, hefur tjáð sig um ákvörðun Margrétar Þórhildar Danadrottningar, þess efnis að börn Jóakims Danaprins missi titla sína á nýju ári sem prinsar og prinsessur. Ákvörðunin hefur vakið mikla athygli í Danmörku.
Krónprinsessan var spurð út í málið þegar hún mætti á ráðstefnu í Kaupmannahöfn í morgun að því fram kemur á vef DR. „Breytingar geta verið afar erfiðar og geta sært. Við vitum það flest. En það þýðir ekki að ákvörðunin sé ekki rétt,“ sagði krónprinsessan. Hún sagði ákvörðunin hafa verið erfiða og það verði erfitt að sætta sig við hana.
Mary er gift Friðriki krónprins en hann mun taka við sem konungur af móður sinni. Elsta barn þeirra er Kristján en hann er aðeins 16 ára. Mary var spurð út í áhrifin á hennar börn. „Í dag vitum við ekki hvernig konungfjölskyldan mun líta út þegar Kristján tekur við eða þegar hans tími nálgast.“
Danskir fjölmiðlar hafa fjallað mikið um málið og fjölskyldumeðlimir ekki hikað við að tjá sig. Jóakim, yngri sonur Margrétar Þórhildar, hefur greint frá því opinberlega að hann sé mjög leiður yfir ákvörðun móður sinnar. Orð eins og fjölskyldustríð sjást á miðlum danskra miðla og hefur Margrét Þórhildur meðal annars verið uppnefnd ísdrottningin. Andrúmsloftið í fjölskyldunni hefur verið undir frostmarki ef marka má orðsendingar og umfjöllun um málið.