Viðskiptamaðurinn Silvio Scaglia lætur ekki skilnað koma í veg fyrir ástina. Hann er trúlofaður aftur þrátt fyrir að standa í miðjum skilnaði við raunveruleikastjörnuna Juliu Haart.
Sú heppna heitir Michelle-Marie Heinemann að því fram kemur á vef Page Six og eru þau trúlofuð eftir stutt samband. „Silvio Scaglia og Michelle-Marie Heinemann eru nýbyrðuð að hittast og eru mjög ástfangin,“ sagði talsmaður hans í vor við bandaríska slúðurmiðilinn.
Nú virðist sambandið orðið öllu alvarlegra og birti Heinemann mynd af trúlofunarhring á samfélagsmiðlum á meðan þau voru í fríi í Frönsku Pólýnesíu. „Saman að eilífu,“ skrifaði hún.
Í febrúar fréttist af því að hjónaband Scaglia og Haart væri að líða undir lok en þau hafa komið fram í raunveruleikaþáttunum My Unorthodox Life á Netflix. Scaglia átti meðal annars tískumerkið La Perla og á stóran hlut í umboðskrifstofunni Elite. Eiginkonu hans var sagt upp störfum hjá Elite þegar kólna fór í hjónasænginni.