James Bond-dagurinn var sl. miðvikudag, 5. október en þann dag árið 1962, eða fyrir réttum 60 árum, var Dr. No, fyrsta kvikmyndin um þennan breska ofurnjósnara frumsýnd. Af því tilefni var haldið uppboð á munum sem tengjast kvikmyndunum, sem orðnar eru 25 talsins, og afraksturinn var 6,9 milljónir punda, jafnvirði rúmlega 1,1 milljarðs króna, sem rennur að mestu til góðgerðarmála.
Uppboðið, var á vegum uppboðshússins Christie’s og kvikmyndaframleiðandans EON Productions, var óvenju veglegt í tilefni af sextíu ára afmæli kvikmyndanna og fór bæði fram á netinu og í húsakynnum Christie's í Lundúnum. Boðnir voru upp rúmlega sextíu munir, þar á meðal bílar, úr, búningar og auglýsingaspjöld svo nokkuð sé nefnt. Allt seldist.
Hæsta verðið fékkst fyrir eftirlíkingu af Aston Martin DB5 bíl, sem notuð var í kvikmyndinni
No Time to Die, nærri 3 milljónir punda eða rúmar 480 milljónir króna. Annar Aston Martin bíll úr sömu mynd seldist fyrir 630 þúsund pund, jafnvirði 100 milljóna króna. Þá seldist áritað handrit að kvikmyndinni Casino Royale, sem frumsýnd var árið 2006, fyrir rúmlega 69 þúsund pund og jakkaföt, sem leikarinn Daniel Craig notaði í myndinni Skyfall árið 2012 seldust á 44.100 pund.
Matseðill, sem Bond pantaði sér kavíar af eftir að unnið erkióþokkann Emilio Largo í spilum í kvikmyndinni Thunderball frá árinu 1965, seldist fyrir 60.480 pund. Þá seldist eftirlíking af Faberge-eggi, sem notuð var í myndinni Octopussy árið 1983, fyrir 327 þúsund pund.
Þetta er í fjórða skipti, sem munir tengdir James Bond eru boðnir upp. Heildarsöluverðið í þetta skipti var meira en samanlagt í hinum uppboðunum þremur.