„Ég er alveg í skýjunum. Þetta er alveg geggjað,“ segir Sigvaldi Jóhannesson, betur þekktur sem Silli kokkur, eftir að hafa lent í öðru sæti í keppni um besta evrópska götubitann, European Street Food Award 2022. Þá hlaut hann verðlaun fyrir besta hamborgarann.
Fleiri hundruð matreiðslumenn og -vagnar kepptu að hans sögn um þátttökurétt og hann því að vonum ánægður með að hafa hafnað í öðru sæti í sinni fyrstu stóru keppni af þessu tagi.
„Ég hef náttúrlega ómælda trú á minni vöru og ég veit að þetta er einstakt handverk. Það er kannski út af sérstöðunni sem ég vissi alveg að ég ætti að geta náð langt og svo er ég með mikið keppnisskap.“
Kokkurinn bauð upp á gæsahamborgara og hreindýrapylsu. Hann segir þessa rétti hafa orðið fyrir valinu, meðal annars vegna þess að hráefnin hafi þolað langt ferðalag.
Keppnin var haldin í München í Þýskalandi um helgina. „Það var svakalega margt fólk og mjög góð stemning. Og við fengum svakalega mörg atkvæði frá þeim sem komu og smökkuðu,“ segir Sigvaldi.
„Sú sem vann í flokknum Götubiti fólksins er heimamaður svo það er erfitt að keppa við það. Fyrir okkur að lenda í öðru sæti þar er svolítið eins og sigur.“