Kvikmyndin American Gigolo frá árinu 1980 datt býsna óvænt inn á efnisveituna Sjónvarp Símans Premium á dögunum. Það er myndin sem gerði Richard Gere að stórstjörnu en hann fer með hlutverk sjálfs gígólósins.
Maddömuna hans Geres í myndinni leikur áhugaverð leikkona, sem ég man raunar ekki eftir að hafa heyrt nefnda áður, Nina, barónessa van Pallandt. Sú hamast við að kenna Gere sænsku í myndinni og fær meðal annars upp úr honum hina kostulegu setningu: „Nei, takk!“ Það er skondið í ljósi þess að Nina þessi er dönsk. Var gefið nafnið Nina Magdelena Møller á því herrans ári 1932 sem þýðir að hún stendur á níræðu.
Barónessan, sem sest er í helgan stein, var jafnvíg á söng og leik meðan hún starfaði. Hún lék til dæmis í þremur Robert Altman-myndum á áttunda áratugnum, The Long Goodbye, A Wedding og Quintet. Á sönghliðinni er hún sennilega þekktust fyrir flutning sinn á lagi Johns Barrys og Hals Davids, Do You Know How Christmas Trees Are Grown? í James Bond-myndinni On Her Majesty’s Secret Service 1969.
Barónessan var um tíma tengdadóttir ensku söngkonunnar Denise Orme sem gerði garðinn frægan í upphafi síðustu aldar á sviðum leikhúsa á borð við Alhambra og Gaiety í Lundúnum. Fáránlega gott nafn, Denise Orme. Sú góða kona var vandlát til karla en eiginmenn hennar þrír voru enskur barón, danskur auðkýfingur og írskur hertogi.
Þaðan kemur þó ekki barónessutitill Ninu en annar eiginmaður hennar var Frederik, barón van Pallandt, dansk/hollenskur söngvari og starfræktu þau hjónin um tíma dúett á sjöunda áratugnum. Þau skildu 1976 en Nina gaf ekki frá sér barónessutitilinn sem dætur þeirra tvær bera einnig í dag.
Nánar er fjallað um barónessuna og aðra leikendur í American Gigolo í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.