Snyrtivöruframleiðandinn Rock And Roll Beauty hefur kynnt samstarf sitt við mann úr ólíklegri átt, málmlistamanninn Ozzy Osbourne. Um er að ræða takmarkað upplag af snyrtivörulínu sem innblásin er af Myrkrahöfðingjanum sjálfum, eins og kunningjar hans og aðdáendur kalla Ozzy gjarnan.
Snyrtivörurnar taka mið af einstökum stíl og útliti Ozzys og eru að sögn talsmanna Rock And Roll Beauty löðrandi í rokki. Við erum að tala um 21 vörutegund, svo sem augnskugga sem heita eftir vinsælum lögum kappans á borð við Iron Man, Zombie Stomp og Crazy Train, kerti, svartan málmvaralit, snyrtibuddur, skammtímahúðflúr og spegil með goþþbrag.
Athygli vekur að leðurblökur eru grafnar í varalitinn en Ozzy tengist þeim, eins og menn þekkja, órofa böndum.
Ozzy er ekki fyrsti rokkarinn sem gengur til samstarfs við Rock And Roll Beauty en þar voru fyrir á mála hljómsveitin Def Leppard og Jimi nokkur Hendrix enda þótt sá síðastnefndi viti nú sennilega mest lítið af því öllu saman.