Bandaríska leikkonan AnnaLynne McCord opnaði sig á síðasta ári um greiningu sína, en hún er greind með rofinn persónuleika eða hugrofssjálfsmyndarröskun (e. dissociative identity disorder). Þegar um rofinn persónuleika er að ræða kemur ein og sama manneskjan fram eins og tvær eða fleiri persónur.
McCord segist hafa fundið fyrir miklum létti þegar hún opnaði sig um greiningu sína og er þakklát fyrir þann góða hljómgrunn sem umræðan hefur fengið.
„Ég trúði því aldrei, ekki í eitt augnablik, að krakkar sem ólust upp eins og ég gætu átt líf eins og ég lifi. Ég er að tala um lífið sem ég hef átt síðasta árið þar sem ég vakna, jafnvel á erfiðum dögum, og er þakklát fyrir að ég sé á lífi og vil ekki binda enda á líf mitt,“ sagði McCord í samtali við People.
Leikkonan hefur einnig talað opinskátt um áfallastreituröskun (e. post-traumatic stress disorder) sem hún glímir við eftir kynferðisofbeldi og önnur áföll í æsku.
McCord segir að þungu fargi hafi verið af sér létt þegar hún deildi röskun sinni með heimunum. Hún segist nú vera laus við alla skömm. „Nú get ég sagt: „Sjáið, þetta er ég,“ og ég er bara ein af mörgum,“ bætti leikkonan við og benti á að fjölmargir sem glími við röskunina séu eru ekki með greiningu eða hafa fengið ranga greiningu og þurfi því að takast á við röskunina án stuðnings.
Ef þú telur þig vera í sjálfsvígshættu er hjálparsími Rauða krossins, 1717, opinn allan sólarhringinn. Einnig er netspjall Rauða krossins, 1717.is, opið allan sólarhringinn. Píeta-samtökin veita ókeypis ráðgjöf í síma 552-2218. Á netspjalli á Heilsuvera.is er einnig hægt að ráðfæra sig við hjúkrunarfræðing um næstu skref. Ef þú ert í bráðri hættu hringdu í 112.
Fyrir þau sem misst hafa ástvin bendir landlæknisembættið á stuðning í sorg hjá Sorgarmiðstöðinni í síma 551-4141.