Hótelerfinginn og tískumógúllinn Paris Hilton segist hafa verið beitt kynferðislegu ofbeldi í Provo Canyon heimavistarskólanum í Utah í Bandaríkjunum. Í samtali við New York Times lýsir hún því hvernig starfsmenn skólans héldu henni niðri og framkvæmdu leghálspróf á henni og öðrum kvenkyns nemendum.
Þegar Hilton var 16 ára gömul sendu foreldrar hennar hana í heimavistarskóla vegna uppreisnalegrar hegðunar hennar. Hún var þar í 11 mánuði áður en hún fór aftur heim.
Skólinn hefur verið umdeildur og í heimildarmynd Hilton sem hún gaf úr árið 2020 sagði hún frá átakanlegri reynslu sinni og áföllum í heimavistarskólanum. Nú hefur hún opnað sig um meint kynferðislegt ofbeldi starfsmanna skólans.
„Mjög seint á kvöldin, þetta var í kringum þrjú eða fjögur á nótunni, fóru þeir með mig og aðra stelpur inn í herbergi þar sem þeir framkvæmdu læknisskoðun,“ sagði Paris og bætti við að þetta hefðu ekki verið læknar heldur „mismunandi starfsmenn sem vildu láta okkur leggjast á borðið og setja fingurna inn í okkur.“
„Ég veit ekki hvað þeir voru að gera, en þetta voru klárlega ekki læknar. Þetta var skelfilegt og eitthvað sem ég hafði í raun lokað fyrir í mörg ár,“ hélt hún áfram með titrandi rödd. „Núna þegar ég lýt til baka sem fullorðin manneskja þá var þetta klárlega kynferðislegt ofbeldi.“
„Ég grét á meðan þeir héldu mér niðri og sagði: „Nei“, en þeir sögðu mér bara að þegja, hafa hljóð og hætta að berjast,“ sagði Hilton.
Í heimildarmyndinni sagði Hilton frá daglegum kvíðaköstum sínum, enda hafi mikil misnotkun átti sér stað í skólanum. Hún sagði nemendur hafa verið neyddir til að taka lyf, haldið niðri með kröftum og stundum settir í einangrun í allt að 20 klukkustundir á dag.