Myndir af raunveruleikastjörnunni Khloé Kardashian frá Balenciaga tískusýningunni í París hafa vakið nokkra athygli á samfélagsmiðlum. Á sumum myndum má sjá langan plástur yfir andliti hennar á meðan plásturinn hefur verið fjarlægður með hjálp myndvinnsluforrita af öðrum myndum.
Netverjar hafa furðað sig, bæði á plástrinum og myndvinnslunni, og hafa ófá myndskeið farið á samfélagsmiðilinn TikTok þar sem myndir af stjörnunni eru settar hlið við hlið. Nú hefur Khloé hins vegar opnað sig um ástæðu plástursins.
@byviketwins Don’t compare yourself 🥲 interesting they blurred it! #khloekardashian #khloe #kardashians #parisfashionweek #balenciaga #balenciagaparis ♬ Cool Kids (our sped up version) - Echosmith
Khloé fór á Instagram í gær og útskýrði fyrir fylgjendum sínum að hún hefði þurft að gangast undir aðgerð til að fjarlægja æxli úr andliti sínu. Hún segist hafa tekið eftir upphleyptu svæði á andliti sínu fyrir sjö mánuðum síðan, en þegar hún hafi látið kíkja á það hjá lækni hafi henni verið ráðlagt að fara í aðgerð strax.
„Þið munið halda áfram að sjá plástrana mína og þegar ég fæ leyfi til að taka þá verður líklega eftir ör. En þangað til vona ég að þið hafið gaman að því hve stórkostlega ég næ að láta þessa plástra líta út,“ skrifaði Khloé.
Hún ráðleggur fylgjendum sínum að fara reglulega í skoðun, en rúm 20 ár eru síðan hún þurfti að fara í aðgerð til að fjarlægja sortuæxli sem fannst á baki hennar. „Ég ber á mig sólarvörn á hverjum einasta degi, svo enginn er undanþeginn þessu,“ bætti Khloé við.