Atvinnuauglýsing úr dagblaði frá 22. júlí 1976 hefur vakið athygli á Twitter undanfarna daga. Þykir auglýsingin á undan sinni samtíð og þó orðin sjálf úr auglýsingunni séu mörg hver orðin úrelt þykir kjarni auglýsingarinnar frekar eiga við árið 2022 en 1976.
Auglýsingin birtist í Vísi en það var Tinna G. Gígja sem birti skjáskot af henni á Twitter. Hún er svo hljóðandi:
„Skrifstofustarf er laust til umsóknar. Kyn skiptir engu mál. Umsækjendur mega vera kynlausir, kynóðir, tvíkynja, kynskiptingar, kynblendingar, kynbombur, kynbornir, kynbættir eða kynvillingar. – Umsóknir merktar „Kynferði algert aukaatriði“ sendist afgr. Vísis sem fyrst.“
Stangast auglýsingin talsvert á við aðrar atvinnuauglýsingar á sömu síðu þar sem til dæmis er auglýst eftir stúlku í verslunna Helgakjör í Hamrahlíð og lögfræðiskrifstofa auglýsir eftir skrifstofustúlku í afleysingar.
Ef flett er í gegnum auglýsingar í atvinnublaði Morgunblaðsins í dag, 13. október 2022, má sjá að fyrrnefnd skrifstofuauglýsing þar sem kynferði er algert aukaatriði er í takt við tíðaranda 2022. „Við hvetjum áhugasama til að sækja um, óháð kyni og uppruna,“ stendur til að mynda í auglýsingu Flensborgarskólans. Í öðrum auglýsingum er ekki óskað eftir starfskrafti af neinu tilteknu kyni.
Vísir - 167. Tölublað (22.07.1976) pic.twitter.com/0iLZVJAsIX
— Tinna G. Gígja (@TinaStSebastian) October 11, 2022