Bleiki dagurinn, hápunktur Bleiku slaufunnar sem er árlegt árvekni- og fjáröflunarátak Krabbameinsfélagsins, er á morgu. Öll eru hvött til að mæta í bleikum fötum á þessum degi til að styðja við baráttunni gegn krabbameinum hjá konum.
Bleiki dagurinn hefur notið sívaxandi vinsælda undanfarin ár og hvetur Krabbameinsfélagið landsmenn til að sýna lit og umvefja allt í bleikum litum. Bera slaufuna, klæðast bleiku og lýsa skammdegið upp í bleikum ljóma svo allar konur sem greinst hafa með krabbamein finni stuðning og samstöðu.
„Það er búið er vera mikil umferð til okkar í Bleiku búðina af einstaklingum og fyrirtækjum sem eru að gera sig klára fyrir Bleika daginn – ná sér í slaufur, sokka, fánalengjur, blöðrur og servíettur fyrir Bleika kaffið,“ segir Ólöf Jakobína verslunarstjóri Bleiku búðar Krabbameinsfélagsins í tilkynningu.
„Síðasti söludagur Bleiku slaufunnar er 20. október svo við hvetjum þá sem enn eiga eftir að ná sér í slaufu til að drífa í því. Slaufan hefur selst mjög vel svo því miður er ekki hægt að fullyrða að hún sé fáanleg á öllum sölustöðum en víða er eitthvað til. Við þekkjum öll konur sem fengið hafa krabbamein og við hjá Krabbameinsfélaginu heyrum ítrekað af því hve dýrmætt fólki finnst að geta keypt slaufuna og beinlínis sýnt lit með því að bera slaufuna. Fyrir það erum við auðvitað mjög þakklát því starfsemi Krabbameinsfélagsins byggir á söfnunarfé eins og úr Bleiku slaufunni,“ segir Halla Þorvaldsdóttir framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins.
Krabbameinsfélagið verður í bleikri stemningu á morgun og hvetur alla til að gera sér glaðan dag, sýna lit, senda þeim myndir á bleikaslaufan@krabb.is og nota #bleikaslaufan á samfélagsmiðlum.