Móðir eins fórnarlambs raðmorðingjans Jeffrey Dahmer dregur í efa frásögn um hvernig sonur hennar var myrtur í þáttunum Monster: The Jeffrey Dahmer Story. Hún segir morðið einfaldlega ekki hafa gerst eins og það var sýnt í þáttunum.
Konan, sem heitir Shirley Hughes og var móðir Tony Hughes, sagðist í viðtali við Guardian ekki skilja hvernig framleiðendur þáttanna geti gert þetta. „Ég skil ekki hvernig þau geta notað nöfn okkar og framleitt svona efni,“ sagði Hughes.
Sonur hennar Tony var heyrnarlaus og gat ekki talað. Hann hitti Dahmer á hinseginbar í Milwaukee hinn 24. maí árið 1991. Dahmer fór með hann heim til sín, gaf honum lyf, og myrti hann svo. Hann aflimaði hann og geymdi höfuðkúpu hans að því er fram kemur í umfjöllun Associated Press.
Í þáttunum er Dahmer, sem túlkaður er af leikaranum Evan Peters, sýndur gefa fé til rannsókna fyrir Hughes. Síðan er hann sýndur elda og borða lifur hans.
Shirley Hughes var viðstödd hvern einasta dag sem réttað var yfir Dahmer árið 1992 að því er segir í umfjöllun AP.
Hún er ekki sú fyrsta úr hópi aðstandenda fórnarlamba Dahmers til að stíga fram. Eric Perry, frændi Errol Lindsey, hefur gagnrýnt þættina og sagt þá rífa upp gömul sár fyrir fjölskylduna.