West kominn langt yfir strikið

Kanye West virðist er kominn langt yfir strikið.
Kanye West virðist er kominn langt yfir strikið. AFP

Fjöllistamaðurinn Kanye West hefur verið einn af vinsælustu listamönnum heims undanfarinn áratug eða lengur. Undanfarið hefur þó farið að halla undan fæti hjá West og andgyðingleg ummæli hans komið honum í klandur, ekki bara í listaheiminum heldur líka í viðskiptaheiminum. 

Það var mikið fjaðrafok í kringum West á tískuvikunni í París þegar hann klæddist bol með áletruninni Hvít líf skipta máli (e. White Lives Matter). Andgyðingleg ummæli hans bæði á samfélagsmiðlum og í viðtali við Fox News hafa svo einnig haft afleiðingar. 

Hefur sloppið vel

Hingað til hefur West sloppið ansi vel og hefur hann alls ekki misst allt þrátt fyrir að hafa uppi skoðanir sem stangast á við almannaálitið. West hefur verið kallaður snillingur og sjálfur hefur hann til dæmis líkt sér sjálfum við Michelangelo  í tónlistinni. 

West hefur líka verið lofaður fyrir að láta í sér heyra, eins og til dæmis þegar hann gagnrýndi þáverandi Bandaríkjaforseta George W. Bush eftir viðbrögð Bandaríkjastjórnar við fellibylnum Katrínu. 

Eftir útgáfu plötu sinnar Life of Pablo árið 2016 veiktist hann alvarlega á geði og hvarf úr sviðsljósinu um nokkurt skeið, en hann hefur opinberlega talað um að hann sé greindur með geðhvörf. 

West hitti Donald Trump í desember 2016.
West hitti Donald Trump í desember 2016. TIMOTHY A. CLARY

Seinna sama ár kom hann með hvelli inn á sjónarsviðið aftur, studdi Donald Trump í forsetakosningunum sama ár og fór á fund með Trump eftir kjör hans. Fáar stjörnur í Hollywood studdu Trump í forsetakosningunum en það gerði West kinnroðalaust og skartaði reglulega derhúfu með slagorðinu Make America Great Again á.

Árið 2020 breytti hann nafni sínu svo í Ye og bauð sig fram til forseta Bandaríkjanna fyrir flokkinn Birthday Party. Hann náði sannarlega ekki markmiði sínu.

Kanye West með Make America Great Again.
Kanye West með Make America Great Again. AFP

Háður athyglinni 

Samtök bandarískra gyðinga (AJC) hefur fordæmt framgengi West undanfarnar vikur og hvatt hann til að reyna finna út úr því hvernig hann geti komið frá sér meiningu sinni án þess að nota andgyðingleg ummæli. 

Í kjölfar tískuvikunnar í París birti West fjölda mynda á síðum sínum á samfélagsmiðlunum Twitter og Instagram. Var hann bannaður á þeim vettvangi í kjölfarið. 

Kollegar hans í stjörnuheiminum hafa sömuleiðis hvatt hann til að hætta þessu. 

Viðtalið við Fox News er svo nýjasti naglinn í kistu West. Í viðtalinu við Fox News ræddi hann andgyðinglega samsæriskenningu en þau ummæli voru klippt út úr viðtalinu fyrir birtingu, þeim var hins vegar lekið á netið. 

Þegar kemur að viðskiptahliðinni þá sagði hann upp samningi sínum við GAP, en samstarfið var orðið ansi stirt. Þýska íþróttavörumerkið Adidas hefur svo skoðað samningstöðu sína gagnvart West undanfarnar vikur. 

Í gegnum árin hefur West fengið að njóta vafans vegna andlegra veikinda sinna. Núna virðist hann hins vegar ekki fá að njóta vafans og almenningsálitið á þá leið að andleg veikindi afsaki ekki ofstæki og kynþáttafordóma. 

Í skoðanagrein á The New York Times lýsir Charles Blow West sem athyglissjúkum narsisista. 

West hefur fengið að njóta vafans vegna andlegra veikinda sinna.
West hefur fengið að njóta vafans vegna andlegra veikinda sinna. AFP

Skilnaðurinn við Kardashian

West var giftur raunveruleikastjörnunni Kim Kardashian sem er án efa ein af frægustu konum heims. Hún sótti um skilnað við hann snemma árs 2020. Síðan þá hefur West fært skilnað þeirra yfir á samfélagsmiðla og í fjölmiðla. 

Þar hefur hann sakað Kardashian um að halda börnum þeirra fjórum frá honum og að því er virðist logið ítrekað upp á Kardashian og fjölskyldu hennar. Kardashian-fjölskyldan hefur stundum svarað og sagt hann vera kominn yfir strikið eða einfaldlega fara rangt með. 

Fyrr á þessu ári var hann settur í sólarhrings bann á Instagram fyrir að áreita Kardashian í gegnum miðilinn.

West ásamt fyrrverandi eiginkonu sinni Kim Kardashian.
West ásamt fyrrverandi eiginkonu sinni Kim Kardashian. AFP

Þegar Kardashian opinberaði samband sitt við grínistann Pete Davidson náði áreitni West á samfélagsmiðlum, fjölmiðlum og í listinni nýjum hæðum. Gerði hann tónlistarmyndband þar sem leirútgáfa af West kemur leirútgáfu af Davidson fyrir kattarnef. Gekk það svo langt að fjölskylda og vinir Davidson óttuðust um líf hans. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú heldur af þér með að gera eitthvað. Leyfðu sjálfstraustinu að njóta sín, því það er þitt bezta vopn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú heldur af þér með að gera eitthvað. Leyfðu sjálfstraustinu að njóta sín, því það er þitt bezta vopn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar