Sjóböðin Hvammsvík í Hvalfirði ætla í samstarfi við World Class að efna til kraftlyftingarkeppni þar sem keppendur lyfta þremur Atlas-grjótum upp á öxl í fjörunni við Hvammsvík. Keppnin hefst kl. 13, laugardaginn 22. október.
Atlas-grjótin sem keppendur glíma við eru í þremur mismunandi þyngdum; 75 kíló, 120 kíló og 170 kíló. Keppendur þurfa að lyfta grjótunum einu af öðru til að klára þrautina og eru vegleg verðlaun í boði fyrir alla sem ná að lyfta einu grjóti eða fleirum.
Keppendur sem ná að lyfta öllu grjótinu upp á öxl verða krýndir Hvammsvíkurvíkingarnir og fá æviaðgang að sjóböðunum, aðgang í betri stofuna í World Class ásamt einni milljón í reiðufé.
Keppendur þurfa að skrá sig á heimasíðu Hvammsvíkur, hvammsvik.is, og bóka sér tíma til þess að taka þátt í keppninni en aðgangur í böðin fylgir skráningu.
„Hvammsvík er gömul landnámsjörð og henni fylgja margar góðar sögur allt frá víkingatímanum og því tilvalið að halda öfluga kraftakeppni í fjöruborðinu við sjóböðin í Hvammsvík. Nú þegar hafa margir af sterkustu mönnum landsins skráð sig til leiks og ljóst að þetta verður hörkuviðburður. Það þarf ekkert smá heljarmenni til að lyfta 170 kílóa kringlóttu grjóti upp á öxl í sandfjöru. Ég hlakka til að sjá þessa jötna spreyta sig á grjótinu og það verður gaman að krýna Hvammsvíkurvíkinginn“, er haft eftir Skúla Mogensen, stofnanda sjóbaðanna í tilkynningu.
Sjóböðin í Hvammsvík opnuðu í sumar og hafa vakið mikla lukku meðal landsmanna sem og ferðamanna. Sjóböðin eru staðsett í hjarta Hvalfjarðar í einungis 45 mínútna akstursfjarlægð frá Reykjavík.
Um er að ræða átta misstórar og heitar náttúrulaugar sem liðast út í fjörðinn og með útsýni yfir hann. Hönnun sjóbaðanna tók mið af náttúrunni og sögunni en þjónustuhúsið er byggt á gömlum braggagrunni frá stríðsárunum, einum af mörgum sem leynast í Hvammsvíkinni.