Tafir verða á umferð í Ártúnsbrekku í dag, föstudag, milli klukkan 9:30 og 13:00. Kvikmyndatökur munu fara þar fram í dag og munu bílar sem eru við tökur aka á 40 til 50 kílómetra hraða.
Frá þessu er greint á vef Vegagerðarinnar og eru vegfarendur beðnir um að sýna tillitssemi.
Á Krýsuvíkurvegi verða einnig lokanir næstu daga. Á vef Vegagerðarinnar segir að vegfarendur megi búast við stuttum lokunum á milli 7 og 19 til og með 22. október. Þar munu einnig fara fram kvikmyndatökur. Veginum verður lokað í um 5 til 7 mínútur í senn.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Krýsuvíkurvegi er lokað vegna kvikmyndaverkefnis. Í september var veginum lokað í nokkra daga vegna þess að þar fóru fram tökur á þáttunum Halo.