Leikarinn Robbie Coltrane er látinn, 72 ára að aldri. Umboðsmaður Coltrane greindi frá þessu í yfirlýsingu síðdegis.
Coltrane fæddist í Skotlandi og er þekktastur fyrir hlutverk sitt í Harry Potter-myndunum. Hann lék sömuleiðis í kvikmyndum á borð við Ocean’s Twelve og tveimur Bond-myndum; GoldenEye og The World Is Not Enough svo stiklað sé á stóru.
„Hans verður líklega helst minnst um ókomna áratugi sem Hagrid í Harry Potter-myndunum, hlutverk sem gladdi bæði börn og fullorðna um heim allan og kallaði á straum aðdáendabréfa í viku hverri í yfir 20 ár,“ sagði í yfirlýsingu umboðsmannsins, Belindu Wright.
Umboðsmaðurinn gat þess ekki hvert banamein Coltrane var en sagði að fjölskylda hans væri þakklát starfsfólki á Forth Valley Royal spítalanum fyrir umönnun hans. Coltrane lætur eftir sig tvö börn sem hann átti með fyrrum eiginkonu sinni.