Leikkonan Angela Lansbury, sem lést í vikunni 96 ára að aldri, lenti í basli með bæði börnin sín, Anthony og Deirdre, meðan þau voru unglingar í kringum 1970.
Bæði supu þau sínar saltöldur enda róttæknin í algleymingi í Kaliforníu og víðar. Hún nuddaði sér um tíma utan í Manson-fjölskylduna og hann ánetjaðist heróíni. Þeirri rimmu lauk með því að hann féll í dá eftir ofskammt en braggaðist fljótt og sneri blaðinu við fyrir tvítugt. Anthony varð síðar kvikmyndaleikstjóri og leikstýrði til að mynda 68 þáttum af Morðgátu.
Lansbury viðurkenndi seinna í viðtali að Deirdre hefði verið heilluð af Charles Manson enda hefði maðurinn búið yfir miklum persónutöfrum. Um það yrði ekki deilt. Þau hjónin skynjuðu hættuna og fluttu um tíma með börn sín til Írlands til að halda Deirdre frá Manson. Það virkaði og hún hefur lifað góðu lífi fjarri illsku og heift þessa heims. Hún er gift ítölskum matreiðslumanni og saman reka þau veitingastað í Los Angeles.
Hér í fásinninu er Lansbury langþekktust fyrir túlkun sína á hinni úrræðagóðu Jessicu Fletcher í sjónvarpsmyndaflokknum Morðgátu eða Murder She Wrote. Hún gerði þó sitthvað fleira á ferli sem spannaði heila átta áratugi. „Það er ljúft að njóta hylli víða um lönd,“ sagði hún einu sinni um vinsældir Morðgátu. „En samt var þetta svolítið eins og Litla gula hænan fyrir leikkonu sem gegnum tíðina hefur verið treyst fyrir svo mörgum stórbrotnum hlutverkum.“
Angelu Lansbury er minnst í fleiri orðum í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.