Gemma Arterton fer með aðalhlutverkið í nýjum breskum gamanmyndaflokki, Funny Woman, sem byggist á samnefndri skáldsögu Nicks Hornbys.
Þar er í brennipunkti Barbara nokkur Parker, fyrrverandi fegurðardrottning frá Blackpool, sem verður vinsæl leikkona í gamanþáttum á sjöunda og áttunda áratugnum undir listamannsnafninu Sophie Straw. Við fylgjumst með vegferð hennar sem að vonum er lituð karlrembu og almennum fordómum á þessum tíma.
Af stiklunni að dæma er fjör í vændum í bland við sígilda músíkhittara frá sexunni. Rupert Everett fer með hlutverk umboðsmanns Barböru og þættirnir verða sýndir á Sky Max-stöðinni.