Leikarinn Seth Green segir leikarann Bill Murray hafa tekið hann upp á ökklunum þegar hann var níu ára gamall og hent honum með höfuðið á undan í ruslatunnu.
Þetta eru ekki fyrstu ásakanirnar á hendur Murray um ofbeldishegðun sem komið hafa fram undanfarið, en nýlega var greint frá því að Murray hefði greitt 100 þúsund bandaríkjadali til að ná sáttum vegna kvörtunar sem kona lagði fram gegn honum. Konan vann við tökur á kvikmyndinni Being Mortal. Sagði hún hann hafa sest klofvega yfir hana og kysst hana í gegnum grímu.
Green segir atvikið hafa átt sér stað þegar tökur fóru fram á þætti af Saturday Night Live. Green lék í senu í þáttunum en Murray var kynnir þáttarins. Hann opnaði sig um uppákomuna í YouTube-þættinum Good Mythical Morning. „Murray sá að ég sat á armbríkinni á sófa og varð pirraður yfir því að ég sæti í slætinu hans. Og ég var bara, það er fáránlegt, ég sit varla á þessum sófa. Það er nóg pláss í sófanum,“ sagði Green og sagði leikarann hafa orðið enn pirraðri.
Móðir Green var með honum baksviðs og sagði honum að færa sig fyrir Murray, en hann neitaði. „Hann tók mig upp á ökklunum. Hélt mér á hvolfi og hélt mér yfir ruslatunnunni. Síðan sagði hann: „ruslið á heima í tunnunni“ og ég öskraði og baðaði út handleggjunum og sló hann í kynfærin. Hann sleppti mér í ruslatunnuna og hún dettur á hliðina. Ég var miður mín. Ég hljóp í burtu og falldi mig undir borðinu í búningaherberginu hágrátandi,“ sagði Green.
Fyrr á þessu ári voru tökur á kvikmyndinni Being Mortal stöðvaðar vegna kvörtunarinnar sem barst vegna Murray. Searchlight Pictures, sem framleiðir myndina, greindi ekki frá því að kvartanirnar gegn Murray væru ástæðan. Murray viðurkenndi svo seinna að það hafi í reynd verið svoleiðis.
Í síðustu viku var birt kafli úr sjálfsævisögu leikkonunnar Geenu Davis. Þar sagði hún Murray hafa krafist þess að fá að nota nuddvél til þess að nudda hana þegar þau voru við tökur á kvikmyndinni Quick Change frá 1990.
„Ég sagði ítrekað nei, en hann hætti ekki. Ég hefði þurft að öskra og vekja athygli annarra til að losna undan honum, hinir karlmennirnir þarna gerðu ekkert til að stöðva hann. Ég áttaði mig á því, og upplifði mikla sorg í kjölfarið, að ég hafði ekki styrkinn til að standa upp og fara,“ skrifaði Davis í bók sína.