Ár er liðið frá því að Travis Barker bað Kourtney Kardashian á afar rómantískan máta. Til að fagna því endurgerðu þau trúlofunina, en í þetta skiptið voru þau með óvæntan áhorfanda sem fylgdist grannt með.
Hinn 18. október 2021 leiddi Travis núverandi eiginkonu sína, Kourtney niður á strönd þar sem biðu þeirra ótal rósir og kertaljós sem raðað hafði verið í hjartalaga mynstur. Í miðju blómahafinu fór hann svo á skeljarnar.
Leikkonan Rebel Wilson var stödd á hótelherbergi sínu í gær þegar hún byrjaði að heyra klassíska tónlist fyrir utan hótelglugga sinn. Hún furðaði sig á því hver væri að spila tónlist svona hátt, en þegar hún leit út um gluggann sá hún fiðluleikara og gítarleikara ásamt blóma- og kertaljósahafi.
Þó trúlofun Kourtney og Travis sé án efa eftirminnileg skildi Rebel ekkert hvað væri um að vera, en stuttu síðar sá hún Kourtney og Travis ganga að hjartanu og áttaði sig á því hvað væri í gangi.
„Ég hugsaði bara: Hver er eiginlega að spila klassíska tónlist fyrir utan herbergið mitt!,“ skrifaði Rebel við myndskeið sem hún tók af Kourtney og Travis.