Hafnaboltastjarnan Alex Rodriguez er sagður njóta þess að eyða tíma með líkamsræktarfrömuðinum Jac Cordeiro. Fram kemur á vef Page Six að Cordeiro, sem var upphaflega kölluð „huldukona“, og Rodriguez hafi fyrst sést saman á mánudaginn í Beverly Hills, Kaliforníu.
Rodriguez var áður með stórstjörnunni Jennifer Lopez, en þau hættu saman í apríl 2021 eftir fimm ára samband. Sambandsslitin voru áberandi í fjölmiðlum, en nokkrum mánuðum eftir sambandsslitin byrjaði Lopez að hitta leikarann Ben Affleck og virtist það taka mikið á Rodriguez.
Hann virtist þó loks kominn yfir sambandsslitin fyrr á árinu þegar hann byrjaði að hitta fyrirsætuna Kathryne Padgett, en þau hættu saman í september eftir átta mánaða samband. Nú er hafnaboltakappinn með augastað á nýrri konu.
Cordeiro er 42 ára tveggja barna móðir, en hún er hjúkrunarfræðingur og með meistaragráðu í næringarfræði. Þar að auki er hún þjálfari og gefur út líkamsræktarplön undir nafninu JacFit.
Heimildarmaður Page Six segir Rodriguez og Cordeiro vera mjög ánægð saman. „Hann nýtur þess að eyða tíma með henni. Hún er frábær,“ bætti hann við.