Streymisveitan Netflix hefur bætt við aðvörun í stiklu fyrir fimmtu þáttaröð Crown sem væntanleg er hinn 9. nóvember næstkomandi. Nú stendur við stikluna að þættirnir séu skáldskapur sem byggir á sögulegum atburðum og að innblástur hafi verið sóttur í raunveruleikann. BBC greinir frá.
Aðvörunin birtist undir stiklunni sem kom út á YouTube í gær og á vefsíðu þáttanna, en ekki í sjónvörpum eða í Netflix-appinu í snjallsímum.
Talsvert hefur verið fjallað um fimmtu þáttaröð Crown í vikunni en bæði sir John Major, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, og leikkonan Judi Dench, hafa kallað eftir því að þættirnir verði merktir skilmerkilega sem skáldskapur.
Major vandaði ekki kveðjurnar í garð framleiðanda þáttanna og sagði senu í fimmtu seríu vera „kjaftæði á stultum“. Átti hann þar við senu þar sem hann sjálfur, sem forsætisráðherra á árunum 1990 til 1997, leggur á ráðin með Karli þáverandi Bretaprinsi, um að fá drottninguna móður hans til að leggja niður völd sín.
Dench hafði sömuleiðis áhyggjur af senunni og sagði að það væri nauðsynlegt að koma því á framfæri að ekki væri um heilagan sannleik að ræða.
Netflix hefur markaðssett þættina undanfarin ár sem þætti sem „sæki innblástur frá raunverulegum atburðum“ en aldrei áður hefur merkingin um skáldskap (e. fictional) komið fram fyrr en nú.
Sem fyrr segir er fimmta þáttaröðin væntanleg á streymisveituna hinn 9. nóvember.