Læðan Kleó týndist í gær en fannst svo í morgun inni í smíðastofu Grandaskóla, þar sem hún hafði lokast inni.
„Við áttuðum okkur á því í gær að Kleó var ekki búin að vera heima lengi. Við fórum að leita að henni nokkrum sinnum en fundum hana ekki. Við fórum svo aftur að leita að henni klukkan sjö í morgun og þá setti ég inn auglýsingu á Facebook.“
Edda býr, ásamt kærustu sinni og kettinum Kleó, beint á móti Grandaskóla. Voru þær að ganga enn eina ferðina í leit að Kleó þegar þær fengu símtal þar sem þær voru spurðar hvort kötturinn sem væri fastur inni í Grandaskóla, væri ekki Kleó.
Þá hafði örfáum mínútum áður, verið birt mynd af ketti, sem var fastur inni í smíðastofu Grandaskóla, í íbúahóp Vesturbæinga á Facebook, og auglýst eftir eigendum.
Þær stukku yfir götuna og fengu þá annað óvænt símtal, en það var frá eiginmanni skólastjóra Grandaskóla, Önnu Sigríðar Guðnadóttur. Hann upplýsti þær um að Anna Sigríður væri að finna til lyklana sína og yrði mætt á svæðið innan skamms, en hún hafði séð færslurnar á Facebook.
„Svo leystist þetta allt á örfáaum mínútum.“ Eddu þótti ótrúlegt að finna fyrir þessum mikla samhug í hverfinu.
„Kisan okkar á líka marga vini í hverfinu og það voru heilmargir kettir farnir að fylgja okkur eftir þegar við vorum að leita að henni.“