Einn frægasti og örlagaríkasti fundur málmsögunnar fór fram í reykmettuðu bakherbergi í New York 11. apríl 1983. Þrír meðlimir ungs og upprennandi þrassbands, sem kallaði sig Metallica, þeir James Hetfield, Lars Ulrich og Cliff Burton, komu þá saman og ákváðu að reka þann fjórða, Dave Mustaine. Í framhaldinu var honum tilkynnt um ákvörðunina og afhentur farmiði aðra leið með Greyhound-langferðabifreið heim til Kaliforníu.
Ákvörðunin var ekki léttvæg enda Mustaine leiftrandi músíkalskur og hálfgerður frontmaður Metallica á tónleikum á þessum tíma enda þótt hann annaðist ekki sönginn, auk þess sem hann lagði gjörva hönd á plóginn við lagasmíðar. Hetfield var óframfærinn á alla kanta á þessum árum, ólíkt því sem við þekkjum í dag.
En Mustaine var stjórnlaus vegna drykkju og á köflum skapofsa og einfaldlega ekki í húsum hæfur, frá sjónarhóli hinna. Það var ískalt mat. Metallica var í New York til að taka upp sína fyrstu breiðskífu og flogið var þangað í skyndi með nýjan gítarista, Kirk Hammett. Og hefur hann dugað síðan. Og rúmlega það. Ekki þarf að hafa mörg orð um það sem síðan gerðist en Metallica gnæfir vitaskuld yfir önnur þrassbönd þegar kemur að vinsældum og almennu fylgi, bæði í málmheimum og öðrum heimum.
Hammett kom úr öðru efnilegu kalifornísku þrassbandi, Exodus, sem hann stofnaði sjálfur 16 ára gamall. Taldi greinilega að Metallica væri frekar á vetur setjandi. Exodus tók brotthvarf Hammetts á kassann og hefur starfað fram á þennan dag, alla tíð þó í skugga hinna fjögurra stóru í þrassinu, Metallica, Slayer, Megadeth og Anthrax. Ekki var raunar nóg að fóðra stóru böndin í blábyrjun, fyrir um áratug gekk annað gítargoð, Gary Holt, eða Garðar í Holti, til liðs við Slayer eftir að Jeff Hanneman veiktist fyrst alvarlega og lést síðan. Öfugt við Hammett þá hætti Holt aldrei í Exodus og hefur einbeitt sér að sínu gamla bandi eftir að Slayer sneri upp tánum haustið 2019.
Annar maður sem tengir Exodus og Slayer er trymbillinn Paul Bostaph. Hann gekk í Slayer þegar Dave Lombardo hætti 1992 en þeir höfðu svo aftur vaktaskipti 2001. Bostaph byrjaði í Exodus 2005 og lamdi þar húðir í tvö ár. Þar hitti hann Holt fyrir en þeir voru í lokaútgáfunni af Slayer frá 2013 til 2019 en Bostaph hafði þá aftur leyst Lombardo af hólmi. Án efa skemmtilegasta trymblahöfrungahlaup sögunnar.
Bostaph hefur raunar verið í fleiri þrassböndum; hefur að minnsta kosti í fjórgang verið í Testament. Hver ætli berji þar húðir í dag? Jú, Dave nokkur Lombardo. Hann er maður eigi einhamur og starfar einnig með Suicidal Tendencies, Mr. Bungle og fleiri sveitum nú um stundir.
Nánar er fjallað um krosstengsl þrasslistamanna í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.