Þýska íþróttavörumerkið Adidas hefur rift samningi sínum við bandaríska fjöllistamanninn Kanye West vegna andgyðinglegra ummæla hans.
Adidas sendi frá sér tilkynningu í dag þar sem segir að ummæli um gyðinga væru óásættanleg, endurspegluðu hatur og væru hættuleg. „Eftir að hafa farið vandlega yfir málin hefur fyrirtækið ákveðið að rifta samningi við hann strax,“ segir í tilkynningu.
Í tilkynningunni kemur fram að fyrirtækið muni taka á sig 250 milljóna evra tap í kjölfarið. West hefur í samstarfi við Adidas hannað og gefið út skó undir nafninu Yeezy sem þykja nokkuð vinsælir. Framleiðslu Yeezy skófatnaðar verður hætt.
Samstarf West við Adidas hefur skilað þó nokkrum hagnaði fyrir fyrirtækið, sem hagnaðist um 1,7 milljarða evra árið 2020 á samstarfinu.
Adidas er ekki fyrsta fyrirtækið til að slíta samstarfi sínu við West vegna andgyðinglegra ummæla hans, en það hafa Balenciaga, Gap og JP Morgan Chase bankinn gert á undanförnum vikum.
West hefur látið ummæli um gyðinga falla á samfélagsmiðlum sem og í viðtali við Fox News. Í upphafi október var hann settur í bann á Instagram og Twitter eftir að hann birti færslur sem flokkaðar voru sem hatursorðræða gegn gyðingum.
Á tískuvikunni í París fyrr í mánuðinum klæddist hann einnig bol með áletruninni Hvít líf skipta máli (e. White Lives Matter).
Í viðtalinu við Fox News ræddi hann um samsæriskenningu um gyðingdóm sem snýr að því að „svartir menn séu hinir réttmætu gyðingar“. Athugasemdir hans um samsæriskenninguna voru klipptar úr viðtalinu áður en það var sett í loftið á sjónvarpsstöðinni, en þeim klippum var lekið á netið.
Valdamiklir og fjársterkir menn, sem eru gyðingar, hafa gagnrýnt framferði West harðlega undanfarnar vikur. Þá kallaði Ari Emanuel, forstjóri fjölmiðlafyrirtækisins Endeavor, eftir því í síðustu viku að fyrirtæki myndu slíta viðskiptasamningum sínum við West. Hann kallaði líka eftir því að streymisveitur á borð við Spotify og Apple Music myndu fjarlægja tónlist hans af veitum sínum.