Dorrit Moussaieff, fyrrverandi forsetafrú Íslands, virðist vera ánægð að sjá hversu hress Boris Johnson, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, er þessa dagana. Hún birti mynd af sér með forsætisráðherranum fyrrverandi í gærkvöldi.
„Gott að sjá Boris í svona góðu formi,“ skrifaði Dorrit við myndina af þeim saman. Þau Dorrit og Johnson virðast hafa haldið upp á Diwali saman, en það er helgasta hátíð hindúa.
Mikið hefur mætt á Johnson undanfarna daga, en hann kom heim til Bretlands um helgina eftir dvöl í Dóminíska lýðveldinu. Íhugaði hann að bjóða sig fram í leiðtogakjöri Íhaldsflokksins, en hætti við á elleftu stundu.
Johnson sagði af sér sem forsætisráðherra Bretlands í sumar.