Fjölmiðlar víða um heim, þar fyrst á ferð stjörnuvéfréttin TMZ, hafa keppst við að greina frá því að píanórokkstjarnan fornfræga. Jerry Lee Lewis, hafi farið yfir móðuna miklu í dag.
Við ritstjórn TMZ hafði samband náungi sem kynnti sig sem fulltrúa Lewis og þætti honum sárt að greina frá því að goðsögnin hefði kvatt þennan heim, 87 ára að aldri. Þegar þeir TMZ-menn tóku að fara nánar ofan í sauma málsins kom í ljós að dánarfregnin var tóm tjara, fréttir af andlátinu stórlega ýktar, eins og rithöfundurinn Mark Twain átti að hafa ritað í bréfi til New York Journal árið 1897.
Neyddist TMZ því til að senda frá sér eftirfarandi tilkynningu nú fyrir skömmu:
„Jerry Lee Lewis er ekki látinn...eins og við greindum frá.
Okkur er tjáð að rokkgoðsögnin sé á lífi og búi í Memphis. Fyrr í dag sagði okkur einhver, sem kvaðst vera fulltrúi Lewis, að hann hefði látist. Það reyndist rangt.
TMZ biðst velvirðingar.“
Sannast þar hið fornkveðna að rokkið lifir.