Glæpasagan Reykjavík, eftir Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra og Ragnar Jónasson var mestselda bókin í verslunum Pennans Eymunssonar í síðustu viku. Bókin fór seint í sölu í vikunni, og var því aðeins í verslunum í einn dag.
Þetta er fyrsta glæpasagan sem forsætisráðherra sendir frá sér, en Ragnar er reynslubolti í þessum leik, enda er þetta fjórtánda skáldsagan sem kemur út eftir hann, á jafnmörgum árum.
Katrín og Ragnar fögnuðu útgáfu bókarinnar á þriðjudag.
Reykjavík hefur vakið talsverða athygli, ekki bara hér heima, heldur líka erlendis. Pétur Már Ólafsson, útgefandi hjá Bjarti/Veröld sem gefur út bókina, sagði í viðtali við Morgunblaðið í dag að forlög í sjö löndum hefðu tryggt sér útgáfurétt að bókinni.
Í glæpasögunni Reykjavík segir frá því að í ágúst 1956 hverfur ung stúlka, Lára Marteinsdóttir, úr vist í Viðey. Eftir það spyrst ekkert til hennar. Áratugum saman hvílir mál Láru þungt á íslensku þjóðinni, það er reglulega rifjað upp í fjölmiðlum án þess að nokkuð komi fram sem skýri örlög hennar.
Í ágúst 1986 fer hins vegar ungur blaðamaður á Vikublaðinu að grafast fyrir um þetta dularfulla mannshvarf – með ófyrirséðum afleiðingum.