Ástralska leikkonan Nicole Kidman kom aðdáendum sínum heldur betur á óvart í gærkvöldi þegar hún birti myndskeið á Instagram-reikningi sínum sem svipti hulunni af leyndum hæfileika hennar.
Myndskeiðið hefur slegið rækilega í gegn, en þar má sjá Kidman og leikarann Luke Evans taka stórkostlega ábreiðu á laginu Say Something sem er upprunalega flutt af A Great Big World og Christina Aguilera, en þau hlutu Grammy-verðlaun árið 2015 fyrir flutninginn.
„Þakka þér fyrir elsku Luke Evans fyrir að biðja mig um að vera hluti af þessum dúett!,“ skrifaði Kidman undir myndskeiðið og bendir á að ábreiðuna megi finna á nýrri plötu Evans, A Song For You.
Aðdáendur voru agndofa yfir hæfileikum Kidman og glöddust yfir sönghæfileikum hennar.
Sumir kröfðust þess að Kidman fengi Grammy-verðlaun fyrir flutninginn á meðan aðrir lögðu til að hún myndi búa til plötu með eiginmanni sínum, söngvaranum Keith Urban.
„Áfram Nicole! Vá. Ég myndi elska að heyra þig og Keith syngja eitthvað saman. Ég sé fyrir mér nýjan feril fyrir Nicole Kidman,“ skrifaði einn aðdáandi hennar við myndskeiðið.
„Koma svo Nicole - þetta er snilld. Þú verður að gera plötu, jafnvel þó það sé bara ein plata - þú verður að deila þessari rödd,“ skrifaði annar.