„Geta þessi augu logið?“ stóð stórum stöfum á forsíðu Morgunblaðsins fyrir réttum hundrað árum, 29. október 1922. Um var að ræða auglýsingu frá Nýja bíói vegna „ljómandi fallegs sjónleiks í fimm þáttum“ sem leikinn var af Nordisk Film Co. Aðalhlutverk léku „hinir ljómandi fallegu leikendur“ Maiken Katia og Gunnar Tolnæs.
„Mynd þessi fjekk óvanalega mikið lof hjá öllum dönskum blöðum, enda var hún sýnd í Kaupmannahöfn samfleytt í 8 mánuði, fyrst tvo mánuði í Pallads og svo í stærri leikhúsunum á eftir; þar af sjest að myndin þykir óvenju góð,“ sagði enn fremur í auglýsingunni.
Eins og það hafi ekki verið nóg þá var líka boðið upp á Ánægjulegan dag, fjórðu og nýjustu milljónamynd Charlies Chaplins sem samin var og leikin af honum sjálfum. „Chaplins hlægilegasta mynd,“ var fullyrt.
Gamla bíó svaraði þessu með Kátum piltum. „Afarskemtilegum gamanleik“ í 5 þáttum eftir „snillinginn“ Thomas H. Ince.
Gamla fréttin er alltaf á baksíðu Sunnudagsblaðs Morgunblaðsins.