Blóðmjólkaði mömmu Stiflers

Jennifer Coolidge í essinu sínu á Emmyverðlaunahátíðinni fyrir skemmstu, þar …
Jennifer Coolidge í essinu sínu á Emmyverðlaunahátíðinni fyrir skemmstu, þar sem hún vann til verðlauna fyrir The White Lotus. AFP/Patrick T. Fallon

„Guði sé lof fyrir mömmu Stiflers,“ sagði bandaríska leikkonan Jennifer Coolidge einu sinni í samtali við USA Today. „Ég er ekki viss um að lífið væri eins skemmtilegt hefði hún ekki komið til skjalanna. Sem einhleyp kona hef ég blóðmjólkað það að vera mamma Stiflers,“ bætti hún við, ábyggilega sposk á svip, en þetta hvetur víst yngri menn unnvörpum til að fara á fjörurnar við hana. „Það er aldrei neinn nálægt mér í aldri. Alltaf ungir gaurar.“  

Coolidge var 38 ára þegar hún lék mömmu Stiflers fyrst í gamanmyndinni American Pie og endurtók leikinn síðan í þrígang. Ekki var um stórt hlutverk að ræða. Mamma Stiflers kom satt best að segja lengst af sáralítið við sögu. Samt muna allir, sem sáu þessar geysivinsælu gamanmyndir, vel eftir henni, enda mikið um hana deilt eftir að hún dró einn úr vinahópi sonar síns, Finch, á tálar og naut ásta með honum uppi á billjarðborði í lok fyrstu myndarinnar. Steve Stifler kom að þeim og var ekki skemmt, svo vægt sé til orða tekið. Hvað þá þegar mamma gamla og Finch endurtóku leikinn, aftur og aftur. Muni ég þetta rétt kom Stiflerinn þó fram hefndum á endanum, sængaði hjá mömmu Finch. Sem var heldur ekki skemmt.

Turtildúfurnar mamma Stiflers og Finch í American Pie.
Turtildúfurnar mamma Stiflers og Finch í American Pie. Universal


Var stóra breikið

Coolidge hafði verið í bransanum um tíma en þetta var stóra tækifærið sem leiddi til stærri hlutverka, meðal annars í öðrum flokki vinsælla kvikmynda, Legally Blonde. Coolidge var einnig gestur í sumum af vinsælustu gamanþáttum þessa tíma í sjónvarpi, svo sem Frasier, Sex and the City og Friends, þar sem hún lék hina uppáþrengjandi Amöndu Buffamonteezi. Nei, ég man þetta ekki. Fletti því upp. Seinna fékk hún svo fast hlutverk í Joey, afleggjara af Friends, þar sem hún lék á móti Matt LeBlanc. Coolidge var einnig í fasta leikarahópnum í gamanþáttunum The Secret Life of the American Teenager og 2 Broke Girls, ef einhver kannast við þá. Af einu hlutverki missti Coolidge þó; var mjög nálægt því að verða Lynette Scavo í Aðþrengdum eiginkonum. Það kom á endanum í hlut Felicity Huffman.

Nú er spurning hvort nýtt erinkennishlutverk sé í augsýn en árið 2021 var mjög gott hjá Coolidge. Hún hlaut þá einróma lof fyrir leik sinn sem hin raunamædda Tanya McQuoid í gamandramaþáttunum The White Lotus og var leyst út með ýmsum verðlaunum, þar á meðal sjálfri Emmunni. Já, okkar kona er loksins að uppskera laun erfiðisins, komin á sjötugsaldurinn. Hún hefur lítið komið við sögu á verðlaunahátíðum til þessa en var þó tilnefnd fyrir „versta gervihreiminn“ í myndinni Date Movie árið 2006. En vann ekki. 

Eins og fram kom hér á opnunni fyrir viku eru sýningar á annarri seríu The White Lotus að hefjast á efnisveitunni HBO í dag, sunnudag, og Coolidge er eini leikarinn sem snýr aftur.

Nánar er fjallað um Jennifer Coolidge í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Til að vera í jafnvægi þarf lífið að búa yfir leik alveg eins og vinnu. Málamiðlunarhæfileikar þínir fara ekki framhjá yfirmönnum þínum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Anna Sundbeck Klav
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Colleen Hoover
5
Patricia Gibney
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Til að vera í jafnvægi þarf lífið að búa yfir leik alveg eins og vinnu. Málamiðlunarhæfileikar þínir fara ekki framhjá yfirmönnum þínum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Anna Sundbeck Klav
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Colleen Hoover
5
Patricia Gibney