Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands, verður með í jólabókaflóðinu í ár. Bókin Bréfin hennar mömmu kemur út hinn 3. nóvember næstkomandi. Í bókinni er að finna bréf móður hans, Svanhildar Hjartar, sem hún skrifaði Grími eiginmanni sínum.
Ólafur Ragnar skrifar inngangskafla og milliþætti sem tengja bréfin við nútímann. Bókin verður einnig gerð aðgengileg sem hljóðbók á Storytel sama dag og hún kemur í verslanir. Forlagið gefur bókina út.
Um bókina segir í tilkynningu:
„Í kjallaranum á Bessastöðum var geymd gömul blá taska. Gerð úr þunnum málmi, beygluð og illa farin, læsingarnar lítið eitt ryðgaðar. Þessi taska hafði fylgt fjölskyldu Ólafs Ragnars allt frá æskuárum hans á Ísafirði en var aldrei opnuð fyrr en að lokinni forsetatíð. Þá kom í ljós fjöldi bréfa sem móðir hans, Svanhildur Hjartar, skrifaði eiginmanni sínum, Grími, árum saman á berklahælum, lengst af á Vífilstöðum en einnig á Kristnesi og sjúkrahúsum í Reykjavík og á Akureyri. Bréfin eru einstæð heimild um glímu þjóðarinnar við hvíta dauðann, eins og faraldurinn var tíðum nefndur.
Á fyrri hluta síðustu aldar voru berklar ein helsta dánarorsök Íslendinga. Þúsundir létust, einkum ungar konur. Bréfin birta á opinskáan, nístandi og sársaukafullan hátt sögu Svanhildar og fjölskyldunnar og lýsa um leið erfiðu skeiði þjóðarinnar. Leiða lesandann inn í veröld hinna sjúku í persónulegum frásögnum sem snerta hjörtu allra.“
Á síðasta ári gaf Ólafur út bókina Rætur: Á æskuslóðum minninga og mótunar en í hitteðfyrra gaf hann út bókina Sögur handa Kára.