Íslandsvinurinn Takeoff er látinn 28 ára að aldri. Var rapparinn skotinn til bana í Houston í Texas í Bandaríkjunum. TMZ greinir frá.
Takeoff, sem réttu nafni hét Kirshnik Khari Ball, var í rappsveitinni Migos sem spilaði hér á Íslandi árið 2017.
Skotárásin átti sér stað í keiluhöll í Houston þar sem hann og rapparinn Quavo voru. Var Takeoff úrskurðaður látinn á staðnum en tveir voru fluttir á slysadeild. Quavo slasaðist ekki í árásinni.
Takeoff var yngsti liðsmaður sveitarinnar Migos, en þeir frændur, Takeoff, Quavo og Offset stofnuðu sveitina árið 2008 í Georgia. Fyrsta lag þeirra sem naut vinsælda var lagið Versace sem kom út árið 2013. Vinsældir þeirra náðu svo hæstu hæðum árið 2016 þegar þeir gáfu út lagið Bad and Boujee.