Taylor Swift skráði nafn sitt svo sannarlega á spjöld sögubókanna í gær þegar hún varð fyrsti listamaður heims til þess að eiga lög í tíu efstu sætum vinsældarlistans í Bandaríkjunum.
Lög af plötu hennar Midnights, sem kom út hinn 21. október, skipa öll tíu efstu sætin, en þar trónir á toppnum lagið Anti-Hero.
Þetta er í fyrsta skipti í 64 ára sögu Billboard-listans sem nokkur listamaður á tíu lög í efstu tíu sætunum. Kanadíski tónlistarmaðurinn Drake komst hvað næst því í september á síðasta ári, en þá átti hann níu af tíu lögum þar.
Midnights er tíunda breiðskífa Swift og setti sannarlega allt á hliðina þegar hún kom út. Streymisveitan Spotify lá niðri í nokkrar klukkustundir þegar hún kom út, en náði hún samt að slá það met að vera mest spilaða platan á einum sólarhring.
Þrettán lög eru á plötunni og segja þau sögu af þrettán svefnlausum nóttum í lífi Swift.