„Mér fannst þetta alveg ótrúlega spennandi af því að ég hef horft á hinar seríurnar og þetta eru alltaf einir vinsælustu þættirnir á Netflix þegar ný sería kemur út,“ segir söngkonan Elísabet Ormslev í samtali við mbl.is.
Lag Elísabetar, Heart Beats, heyrist nú í nýjustu seríu þáttanna Love is Blind sem sýndir eru á Netflix.
Hún segir það vera mikinn heiður að tónlistin sín fái að heyrast í svo vinsælli þáttaröð.
Elísabet gaf lagið út árið 2019 í samstarfi við bandarísku söngkonunna Zöe Ruth Erwin.
„Zöe er frá Los Angeles og hefur áður unnið með þessu ákveðna fyrirtæki sem leitaði til okkar. Það kom í rauninni beiðni frá Love is Blind fyrir laginu og svo fengum við beiðnina í ágúst. Þetta var í rauninni mjög einfalt.“
Þriðja sería Love is Blind kom út 19. október og kemur lagið við sögu í níunda þætti seríunnar. Er þetta í fyrsta sinn sem tónlist Elísabetar heyrist í verkefni á erlendum vettvangi.
Elísabet hefur verið á fullu að semja tónlist á árinu og segir hún mikið af skemmtilegum verkefnum vera framundan.
„Það má segja að það hafi losnað svolítið um einhverja stíflu hjá mér varðandi lagasmíð,“ segir hún og hlær.
„Ég er að fara að gefa út mjög mikið á næsta ári og svo er fullt af tónleikum og mjög skemmtilegum verkefnum framundan.“