Tónlistarmaðurinn Nick Carter og Angel Carter, systkini tónlistarmannsins Aarons Carters, minntust bróður síns í fallegum færslum á samfélagsmiðlum um helgina. Aaron fannst látinn á heimili sínu á laugardag. Hann var 34 ára gamall.
Nick, þekktastur fyrir að vera í sveitinni Backstreet Boys, rifjaði upp flókið samband sitt við bróður sinn en sagðist alltaf elska hann þrátt fyrir það.
„Ég hef alltaf haldið í vonina um að hann myndi einhvern veginn vilja feta heilsusamlegri veg og leita sér hjálpar sem hann sannarlega þurfti. Stundum viljum við kenna einhverju öðru eða öðrum um missi okkar. Sannleikurinn er sá að fíkn og andleg veikindi eru sökudólgurinn hér,“ sagði Nick um bróður sinn og sagðist myndu sakna hans gríðarlega.
Nick fékk nálgunarbann gegn bróður sínum í nóvember árið 2019, meðal annars vegna hótana Aarons um að hann ætlaði að myrða ólétta eiginkonu Nicks.
Angel, tvíburasystir Aarons, heiðraði einnig minningu hans um helgina og birti fjölda mynda af þeim systkinunum saman.
„Elsku fyndni, góði Aaron, ég á svo margar minningar um þig, og ég lofa að gleyma þeim ekki. Ég veit þú hefur fundið friðinn núna. Þú verður með mér alla ævi, og þá fæ ég að sjá þig aftur,“ skrifaði Angel.
Carter-systkinin voru alls fimm og eru nú þrjú eftir; Nick, Angela og systir þeirra Bobbie Jean Carter eru á lífi. Leslie lést árið 2012, 25 ára að aldri, eftir að hafa tekið of stóran skammt af fíkniefnum.