Marta Lovísa Noregsprinsessa ætlar að hætta að sinna opinberum skyldum fyrir norsku konungshöllina. Þetta kemur fram í tilkynningu frá höllinni í dag.
Þar segir að prinsessan vilji aðgreina betur sitt persónulega líf frá konungsfjölskyldunni. Hún mun áfram halda prinsessutitlinum, en fær ekki að nota titilinn í vinnu sinni á samfélagsmiðlum.
Marta er eldri systir Hákonar krónprins en er þrátt fyrir það ekki ríkisarfi. Lögunum um erfingja krúnunnar í Noregi var ekki breytt fyrr en árið 1990 og var lögunum ekki breytt afturvirkt. Hún er því fjórða í röðinni á eftir Hákoni og börnunum hans tveimur.
Marta Lovísa er í sambandi með seiðmanninum Durek Verrett og eru þau búsett í Bandaríkjunum. Í tilkynningunni frá norsku konungshöllinni kemur fram að þegar þau giftast muni hinn umdeildi Verrett ekki hljóta konungstitil þó hann verði hluti af konungsfjölskyldunni. Er það í samræmi við hefðir, en þar sem Marta er ekki krónprinsessa hlýtur maki hennar ekki konunglegan titil.
Foreldrar prinsessunnar, Haraldur 5. Noregskonungur og Sonja Noregsdrottning, þakka henni fyrir vel unnin störf síðustu áratugina.