Tékkneski myndlistamaðurinn Krištof Kintera ,mun hanna og reisa sviðið á jólatónleikum Baggalúts í Háskólabíói. Verkið verður unnið í samstarfi við Terra, sem leggur listamanninum til hráefni en Krištof er þekktur fyrir að nota hluti sem hefur verið fleygt eða fargað í sinni listsköpun, oft raftæki.
Verk hans kveikja gjarnan hugrenningar um ýkta neyslumenningu, sóun, ágang á auðlindir jarðar og stöðu mannfólks í umhverfi sem fer hratt hnignandi þrátt fyrir örar tækniframfarir.
Listamaðurinn kemur til Íslands, ásamt föruneyti, síðar í mánuðinum en undirbúningur hefur staðið yfir síðan í sumar. Hann hefur sérstaklega óskað eftir ákveðnum hlutum sem verður safnað í sérmerkta gáma við vesturenda Háskólabíós, á móts við Dunhaga, á laugardag og sunnudag næstkomandi.
Það eru: Þvottavélar, borðlampar, standlampar, gervijólatré, jólaseríur og ryksugur. Þau sem vilja nýta tækifærið og koma fyrrgreindum hlutum í endurnýtingu og sjá þá öðlast nýtt hlutverk á sviði Háskólabíós í desember, eru beðin um að koma þeim snyrtilega fyrir í gámunum. Og kannski mun gamla góða ryksugan þín eða þvottavélin hans afa verða miðpunktur listaverks á heimsmælikvarða.
„Terra umhverfisþjónusta fagnar tækifærinu til að taka þátt í listsköpun þar sem hráefnið er nytjahlutir sem öðlast nýtt hlutverk. Það er mikilvægt að nýta helst allt til fullnustu og skilja ekkert eftir. Það er mjög ánægjulegt að vera þátttakandi í þessu verkefni og við hlökkum mikið til að sjá útkomuna á sviði Háskólabíós,“ segir Líf Lárusdóttir, markaðsstjóri Terra.
Guðmundur Kristinn Jónsson, leiðtogi tónlistar hjá Baggalúti segir: „Hljómsveitin Baggalútur hefur í rauninni verið dugleg við að endurvinna gamla slagara og gefa þeim framhaldslíf sem jólalög - þannig að ef þú pælir í því þá eru þessi fyrri tíma jólalög okkar meira og minna endurvinnsla. Sem er auðvitað frábært. En að því sögðu er afar mikilvægt að við hysjum öll upp um okkur og förum að hugsa um umhverfismál af alvöru. Grínjólatónlistarbransinn er þar ekki undanskilinn. Koma Krištofs Kintera er mikill fengur fyrir Baggalút að sjálfsögðu en ekki síður hvalreki fyrir íslenskt menningarlíf.“
Söfnunargámar verða við Háskólabíó, merktir átakinu. Gámarnir verða opnir frá kl. 9–21 á laugardag og sunnudag.